Akurskógrækt og lífmassi

Einföld skilgreining á skógrækt er að hún sé fræðigreinin sem fjallar um að planta trjám og hirða um þau. Skógfræðingar þætta saman mannafla, fjármagn, landnotkun, vistfræðiþekkingu og verkkunnáttu á þann hátt að til verði skógur sem uppfyllir markmið ræktunarinnar. En hvað er þá tré? Tré hefur verið skilgreint sem viðarkennd fjölær planta sem hefur einn megin stofn og oftast greinilega krónu. Runnar, sem eru margstofna trjákenndar plöntur eru þá ekki tré samkvæmt þessari skilgreiningu og ræktun runna er ekki skógrækt. Mörk milli trjáa og runna eru hins vegar oft óljós, sem sést vel í íslenska birkiskóginum, og því e.t.v. rétt að skilgreina skógrækt sem ræktun og umhirðu viðarplantna.

 

Frá Skaftafelli

 

Sé litið á tilganginn með skógrækt vandast málið enn frekar. Í sinni einföldustu mynd er skógrækt fólgin í umsjón með náttúruskógum. Stundum er einungis um aðgerðir eins og friðun eða takmörkun á fjölda beitardýra að ræða. Í öðrum tilfellum er umhirðan fólgin í lágmarks grisjun og því að fjarlægja fallin tré. Jafnvel stígagerð fyrir ferðamenn og sala veiðileyfa fellur undir starfssvið skógræktar.

 

Á hinum jaðri skógræktar er ræktun sem miðar að framleiðslu viðar og lífmassa með hámarks arðsemi í huga. Slík skógrækt á margt sammerkt með akuryrkju. Enda er það svo að landeigandinn stendur iðulega frammi fyrir vali um það hvort hann vill rækta tré eða runna til framleiðslunnar eða hvort hann á að veðja á stórvaxnar grastegundir, hamp eða repju, svo dæmi séu tekin. Þá er að sjálfsögðu um lífmassaframleiðslu að ræða en ekki framleiðslu timburs.

 

Skógrækt sem miðar að lífmassaframleiðslu, og mætti nefna akurskógrækt, hefur mun styttri ræktunarlotu en skógrækt sem ætluð er til timburframleiðslu. Algeng ræktun varir í 3-20 ár. Ræktun í 3-8 ár nefnist á ensku short rotation coppice (SRC) og hefur verið nefnd teinungarækt og ef ræktunarlotan er 8-20 ár er skógræktin nefnd short rotation forestry (SRF), sem gæti kallast skógrækt með stutta lotu eða skammlotuskógrækt. Í fyrrnefndu ræktunina veljast oft víðitegundir, en aspir, elri, Eucalyptus (tröllatré) o.fl. í lengri ræktunarlotuna. Lengri ræktunin getur gefið af sér borðvið við góð skilyrði.

 

Ösp á Hallormsstað

 

Í grannlöndum okkar og í Norður-Ameríku hefur skógrækt til lífmassaframleiðslu færst mjög í vöxt. Viðurinn hefur verið nýttur til pappírsframleiðslu og til beinnar brennslu, en nú er í vaxandi mæli leitast við að þróa hagkvæmar aðferðir til þess að framleiða úr lífmassanun fljótandi eldsneyti, einkum vínanda (etanól). Töluvert hefur verið framleitt af vínanda með með bruggun korns, en mörgum þykir það sóun, þar sem korn ætti fremur að nýta til manneldis eða fóðurs.

 

Spyrja má hvort íslensk skógrækt eigi eitthvað erindi í orkuskógrækt. Í ljósi mikillar innlendrar og sjálfbærrar orkuframleiðslu kann það að þykja ólíklegt. En þá þarf að hafa í huga að um þriðjungur orku okkar fer til þess að knýja samgöngu- og flutningatæki og fiskiskipaflotann. Etanól og lífdísill gætu þegar tímar líða orðið mikilvægt eldsneyti og leyst jarðefnaeldsneyti af hólmi.

Á Íslandi eru svæði þar sem lítið er um jarðhita. Þar gæti hentað að brenna viði til húsakyndingar. Á Hallormsstað á Héraði er farið af stað tilraunaverkefni með fjarvarmaveitu frá kyndistöð sem brennir viði.

Í vissar gerðir málmframleiðslu þarf kolefnisgjafa. Sumarið 2009 skrifuðu Skógrækt ríkisins og Elkem Ísland undir samning um að Skógræktin útvegaði 1000 tonn af grisjunarviði úr íslenskum skógum í tilraunaverkefni þar sem ferskt viðarkurl er notað sem kolefnisgjafi í stað jarðefnaeldsneytis í járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga. Reynist viðarkurlið vel er stefnt að langtímasamningi um notkun íslensks iðnviðar á Grundartanga. Ljóst er að þá verður þörf fyrir mörg þúsund tonn af kurli árlega. Ásamt Skógrækt ríkisins stóðu Landsamtök skógareigenda, Skógræktarfélag Íslands og skógræktarfélögin í nágrenni verksmiðjunnar að samningsgerðinni.

 

Mikið magn af kurli úr íslenskum viði er nú í notað sem undirburður undir hesta, svín og fiðurfénað. Sá markaður fyrir íslenskt hráefni hefur vaxið mjög eftir að gengi krónunnar féll og innflutningur á spónum og kurli varð óhagkvæmur.

 

Tré fyrir lífmassaskógrækt  

Í mörgum íslenskum skógum er orðið tímabært að grisja. Það er einkum viður úr þeirri grisjun sem nú er nýttur í framleiðslu undirburðar og í verkefnið á Grundartanga. Íslenskir skógar sem komnir eru á grisjunarstig eru ekki miklir að vöxtum og því tímabært að fara að huga að skógrækt sem miðar að hagkvæmri framleiðslu á lífmassa fyrir umræddan markað og til orkuefnaframleiðslu.

 

Vöxtur trjáa hér á landi vissulega minni en við bestu skilyrði erlendis, en þessi bestu skilyrði eru óvíða, og mælt í massa er vöxturinn alls ekki svo lítill á Íslandi sé hann borinn saman við vöxt í öðrum norðlægum löndum. Viður er þar að auki dýr í flutningi og er flutningskostnaður um fjórðungur til þriðjungur af verðmæti innflutts iðnviðar. Einnig má nefna að kostnaður við að koma upp iðnviðarskógi hér á landi er líklega mun minni en víða erlendis vegna minni stofnkostnaðar. Verð á landi er hér lægra en víðast hvar í þéttbýlum landbúnaðarlöndum. Hér er girðingarkostnaður lægri en víða erlendis þar sem verjast þarf nagdýrum og hjartardýrum. Kostnaðar við eyðingu illgresis er einnig minni í íslenskri skógrækt en víða gerist erlendis.

Tilraun á Sóleyjabakka

Með kynbótum og úrvali getum við eignast klóna og stofna sem vaxa mun hraðar en þau tré sem nú eru ræktuð og bætt þannig samkeppnisstöðu okkar. Einfaldast og fljótlegast er að kynbæta víði og ösp. Kynbætur á þessum ættkvíslum eiga sér langa sögu á meginlandi Evrópu og í Ameríku. Hér hefur töluvert verið unnið að klónaprófunum á víði og ösp, og þá aðallega unnið með óbreyttan efnivið frá Alaska. Aspir fóru að bera fræ hér á landi á áttunda áratug síðustu aldar. Á Akureyri var mikil fræmyndun laust fyrir 1980 og var þá safnað fræi. Af því eru komnir nokkrir klónar sem eru í tilraunum Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá. Á Hvolsvelli var safnað fræi 1983 og eru klónar af því fræi í tilraunum. Fyrsta skipulega stýrða víxlun var gerð á Mógilsá 1988 í tengslum við iðnviðarverkefnið sem þá stóð til að setja af stað. Það var víxlun milli Iðunnar og Keisara, en 25 klónar af þeirri víxlun eru nú í Hellisskógi við Selfoss og víðar á Suðurlandi. Árið 1995 var víxlað saman nokkrum klónum frá suðurströnd Alaska og fóru afkvæmin í tilraunir á tveim stöðum á Suðurlandi. Stýrðar víxlanir á milli margra ólíkra klóna af alaskaösp voru gerðar árin 2002, 2004 og 2006. Afkvæmaprófanir úr þeim víxlunum hafa verið lagðar út víða á landinu, og vorið 2008 var byrjað að velja efnileg tré úr þessum tilraunum. Árið 2007 voru framleiddir tegundablendingar af ösp, þar sem alaskaösp og sléttuösp (Populus deltoides) var víxlað, og úr þeim efniviði er nú verið að velja efnilega klóna til prófunar.

 

Asparblendingar á Mógilsá

 

Mikið verk er óunnið við að prófa allan þann efnivið sem orðið hefur til í fyrrnefndum verkefnum. Æskilegt væri að hefja kynbætur á víði og jafnvel elri og reyni, með það að markmiði að fá fram klóna og stofna sem henta í teinungarækt eða skammlotuskógrækt til lífmassaframleiðslu. Því miður er takmörkuðu fjármagni veitt til kynbótaverkefna af opinberri hálfu, og erfiðlega gengur að fá rannsóknasjóði til þess að styrkja verkefni sem taka langan tíma í framkvæmd.

 

Erlendis er víðir mest notaður í teinungarækt (SRC) en ösp í skógrækt með stutta lotu (SRF). Víðirinn er sleginn á 3-5 ára fresti og þetta endurtekið a.m.k. fjórum sinnum á sömu plöntunum. Öspin er felld á bilinu 8-20 ára og stundum aðeins uppskorin einu sinni og þá plantað aftur eða landið tekið til annarra nota. Æskilegt er talið að stofnar nái 15 sm þvermáli í brjósthæð þegar trén eru felld. Bestu klónar sem völ er á hér á landi gætu hugsanlega náð þessu marki við 15-20 ára aldur og væru trén þá 13-16 metra há. Einnig mætti nota valda asparklóna í teinungarækt og e.t.v. uppskera á 5-6 ára fresti. Í þá ræktun þarf að nota klóna sem mynda fljótt marga sprota frá stubbum eftir að trén hafa verið höggvin.

Fleiri trjátegundir koma til greina í akurskógrækt. Má þar t.d. nefna elritegundir og reynivið.

 

Kostir akurskógræktar 

Fyrir landeigendur hefur skammtímaskógrækt af því tagi sem hér hefur verið lýst ýmsa kosti. Mikilvægast er að skógareigandinn fær tekjur sínar mun fyrr en ef um hefðbundna skógrækt er að ræða. Eftir að ræktunarlotu lýkur getur hann tekið landið til annarra nota ef honum sýnist svo. Það þarf einnig mun minna land fyrir framleiðsluna en venjulega fer undir hefðbundinn skóg. Oft er talað um að skógrækt keppi um land við kornrækt og aðra fóður- eða matvælaframleiðslu. Það er varla tilfellið hér á landi. Íslenskar bújarðir eru yfirleitt það stórar að ekki er þörf á að nýta allt landið fyrir fóðurrækt. Ræktun hraðvaxta trjátegunda hentar oft vel á landi sem er ekki heppilegt til kornræktar eða túnræktar, t.d. á framræstum mýrum eða grýttu landi. Það er einnig kjörið að skipuleggja skógræktina þannig að skógurinn veiti skjól fyrir aðra ræktun og búpening. Allt mælir því með því að hefja sem fyrst tilraunir með akurskógrækt. Á næstu árum munum við vonandi eignast úrval klóna af ösp og e.t.v. fleiri trjátegundum sem henta fyrir akurskógrækt í öllum landshlutum.

 

Þessi grein birtist örlítið stytt og breytt í blaði Landssamtaka skógareigenda í vor.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband