Meiri skógur er þjóðarnauðsyn

Að skapa skóg

Við Íslendingar búum í nánast skóglausu landi. Svo verður að telja þótt fátæklegar leifar af fornum skógum tóri í inndölum. Víða eru þessir gömlu birkiskógar lítils vaxtar og myndu hvergi í grannlöndum okkar flokkast sem skógar. Þetta eru nú samt okkar frumskógar og við fögnum því að þeir skuli vera til og jafnvel vera að breiðast út þar sem þeir fá frið fyrir sauðkindinni og athöfnum manna. En snemma kynntust Íslendingar skógum annarra landa og þeim nytjum sem hafa mátti af þeim og dreymdi um að koma slíkum skógum á fót. Vegna tegundafátæktar íslensku flórunnar voru hér fáar trjátegundir tiltækar. Einu tegundirnar sem gátu talist tré eru ilmbjörk og ilmreynir sem geta vissulega gefið af sér ákveðnar afurðir en timburtré geta þær varla talist. Menn sóttu því tegundir til annarra landa. Margar þeirra vaxa hér vel og geta myndað skóga sem eru mun vöxtulegri en innlendu birkiskógarnir. Þeir skógar henta betur til viðarnytja en okkar gömlu skógar. Þrátt fyrir það er lögð rækt við birkið og engin trjHamarátegund er meira gróðursett en það. Nýverið lauk átaki í söfnun birkifræs og sáningu. Innan fárra ára sést vonandi árangur af því átaki.

Ræktun innfluttra tegunda

Veðurfar á Íslandi er ólíkt því sem þekkist í flestum öðrum löndum og því var óvíst með árangur í skógrækt. Fyrst urðu fyrir valinu tegundir sem algengar eru í skógum Norðurlanda, skógarfura og rauðgreni. Snemma var einnig farið að prófa lerki frá Rússlandi og fjallafuru úr Alpafjöllum. Ekki kunnu allar þessar tegundir alls kostar við sig nema á völdum stöðum og sum kvæmi dóu út. Lerki frá Rússlandi þótti þó snemma efnilegt. Skógarfuran sem kom frá Norður-Noregi þurrkaðist nánast alveg út. Segja má að þáttaskil hafi orðið þegar farið var að planta barrtrjám frá Norður-Ameríku, einkum sitkagreni og stafafuru. Trén voru fyrst og fremst sótt til Alaska. Ekki aðeins lifðu þessar tegundir vel heldur uxu þær sumar einnig mun hraðar en tegundirnar sem fyrr voru reyndar. Frá Alaska kom einnig alaskaösp sem í fyrstu var lítt plantað í skóga, en hefur á síðustu þremur áratugum verið talsvert gróðursett.

Gagnrýni á notkun innfluttra tegunda

Á síðustu áratugum hefur nokkuð borið á andstöðu við ræktun erlendra tegunda í skógrækt. Þetta á ekki aðeins við hér á landi heldur ber víða á slíku. Innfluttar tegundir eru þá gjarnan taldar ógn við náttúruleg vistkerfi. Margar þeirra eru stimplaðar ágengar af einhverjum stofnunum eða sérfræðingum. Í sumum löndum hafa slíkir hópar haft veruleg áhrif á stjórnmálamenn og ákvarðanatökur varðandi skógrækt. Dæmi um það er Noregur. En í öðrum löndum er löng hefð fyrir notkun innfluttra tegunda, t.d. á Bretlandseyjum og í Frakklandi, og þar er fjárhagsleg þýðing innfluttra trjátegunda mikil. Barrtré, svo sem greni, fura og degli vaxa hratt og henta vel sem nytjatré. En í öllum Evrópulöndum er nokkur þrýstingur á aukna fjölbreytni í notkun tegunda. Þar er víða verið að kalla eftir plöntun innlendra tegunda og einkum þá lauftrjáa sem algeng eru í laufskógabeltinu.

Kolefnisbinding trjáa

Á síðustu árum hefur loftslagsumræðan kallað eftir aukinni skógrækt til þess að binda kolefni. Þá skiptir verulegu máli að tré vaxi hratt. Þær trjátegundir sem við höfum möguleika á að rækta á Íslandi vaxa mjög mishratt. Þetta þýðir að til þess að binda sama magn þarf mun stærra svæði ef nota á hægvaxta tegund en ef notuð er tegund sem vex hraðar. Nú er það staðreynd að Stofná Íslandi er nóg landrými fyrir nýskógrækt svo ekkert er því til fyrirstöðu að nota hægvaxta tré til kolefnisbindingar. Í mörgum löndum keppir skógrækt við land til matvælaframleiðslu og þar er mikilvægt að spara land með því að nota uppskerumiklar trjátegundir. En þó að nægt landrými sé fyrir hendi er ódýrara að planta hraðvaxta trjátegundum vegna þess að hægt er að ná sama árangri með færri plöntum og á minna landi. Sáning fræs er þó líklega ódýrasta aðferðin og til dæmis hentar sáning birkifræs vel sums staðar á lítt grónu landi. Stafafura og sitkagreni henta einnig vel til sáningar. Alaskaösp vex hraðast allra hérlendra trjátegunda og getur við góðar aðstæður bundið yfir 20 tonn af koltvíoxíði á hektara árlega. Barrtrén binda oftast ekki nema helming á við öspina og birkiskógur á bilinu tvö til fjögur tonn. Samkvæmt mælingum Skógræktarinnar eru meðaltalstölurnar þessar: Alaskaösp 16,2 tonn CO2 á ha á ári, sitkagreni 8,3 tonn, stafafura 7,0 tonn, rússalerki 7,2 tonn og ilmbjörk 3,1 tonn. Þetta þýðir að öspin þarf fimm sinnum minna land en birkið til þess að binda sama magn koltvíoxíðs á líftíma sínum. Trén færa einnig mikið kolefni niður í jarðveginn.

Nýting trjátegunda

Þó svo að kolefnisbinding sé afar mikilvæg á okkar tímum eru markmiðin með skógrækt fleiri. Þar ber fyrst að nefna viðarnytjar. Í fyllingu tímans fer skógurinn að gefa af sér nytjavið sem nýtist til húsbygginga og í húsgagnaframleiðslu. Einnig er önnur nýting viðar í mikilli þróun erlendis. Úr viði er auðvitað unninn pappír, en viður getur verið hráefni í allt sem nú er unnið úr olíu. Sé viður notaður til húsbygginga eða í húsgögn geymist bundið kolefni jafnvel í aldir. Sé viður notaður sem eldsneyti fer kolefnið út í lofthjúpinn, en komi viður í stað jarðefnaeldsneytis, til dæmis í brennsluofnum stóriðjuvera, er sú notkun jákvæð fyrir loftslagið.

Margföldum gróðursetningu trjáaÖsp20

Í hlýnandi loftslagi framtíðarinnar munu skógar okkar vaxa hraðar en þeir gera nú, og framleiða meiri við. Meiri kolefnisbinding myndi einnig hjálpa okkur við að standa við loftslagssamninga okkar og að losna við stórfelld kaup á losunarheimildum. Fyrir bankahrunið voru gróðursettar sex milljónir trjáplantna árlega en síðan hefur aðeins helmingi þess fjölda verið plantað. Ríkisstjórn Íslands hafði um tíma áform um að fjórfalda gróðursetningu trjáa, einkum með það fyrir augum að auka kolefnisbindingu. Illu heilli voru þau áform lögð á hilluna. Nú eru þó horfur á að fjármagn til skógræktar verði aukið bæði á vegum ríkisins og annarra aðila. Hér á landi eru ræktaðir skógar ungir og nýting þeirra rétt að byrja. En þessir skógar eru vaxandi auðlind. Við eigum mikið af gróðurlitlu landi og við erum rík þjóð og ættum að planta mun fleiri trjám en nú er gert.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband