Lúpínuumræðan sett í samhengi

Það voraði vel í ár og sumarið hefur verið gróðri hagstætt, svo allt í lífríkinu hefur verið fyrr á ferðinni en venja var fyrr á árum. Í síðasta mánuði var blómgun margra trjáa og runna óvenju mikil og margar jurtir áttu einnig sitt blómaskeið í júní. Ein af þeim jurtum sem setur mikinn svip á júnímánuð víða í grennd við þéttbýli er alaskalúpínan, sem er plöntutegund sem óþarft er að kynna. Umræður um þessa plöntu hafa oft verið líflegar, en þó líklega aldrei eins og nú. Orsökin er skýrsla Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ) og Landgræðslu ríkisins (Lr) um alaskalúpínu og skógarkerfil og yfirlýsingar um aðgerðir gegn lúpínu og greinaskrif í framhaldinu.

 

Lúpína á Mýrdalssandi

 Viðbrögð skógræktarfólks 

Viðbrögð margra aðdáenda lúpínunnar hafa verið hörð. Stofnuð hefur verið fésbókarsíða til stuðnings lúpínunni og Skógræktarfélag Íslands og Skógrækt ríkisins hafa gagnrýnt skýrsluna harðlega. Umhverfisráðherra hefur látið þessa gagnrýni sem vind um eyrun þjóta og heldur fast við sín áform um takmarkanir á notkun lúpínu og áform um eyðingu hennar á svæðum þar sem sérfæðingar NÍ telja að hún eigi ekki heima.

 

Rök fyrir aðgerðum og mótrök 

Höfuðrök lúpínuandstæðinga hníga að því að lúpínan ógni öðrum plöntutegundum og vistkerfum og dragi úr líffræðilegum fjölbreytileika. Lúpínuvinir draga allt þetta í efa. Engum plöntutegundum sé ógnað né heldur séu vistkerfi í hættu vegna lúpínunnar. Þeir telja einnig að NÍ túlki hugtakið líffræðilegan fjölbreytileika mjög þröngt, þar sem aðeins sé litið á fjölda þeirra plöntutegunda sem lúpínan kann að yfirskyggja, en ekkert tillit tekið til aukins fjölbreytileika örvera og dýralifs í kjölfar lúpínunnar. Höfundar skýrslunnar fyrrnefndu kæri sig einnig kollótta um aukna framleiðslu og líffræðilega burðargetu hins nýja eða breytta vistkerfis.

 

Framandi tegundir í skógrækt 

Eitt atriði skýrir þó andstöðu skógræktarmanna öðru fremur. Það er sú áhersla sem oft er lögð á skaðsemi innfluttra eða framandi ágengra plantna, eins og það er orðað. Fullyrðing eins og: „Þessi tegund er innflutt og á því ekki heima hér”, fer mjög fyrir brjóstið á skógræktarfólki, sem skýrist auðvitað af því að flestar trjátegundir sem hér eru ræktaðar eru innfluttar. Áhugafólki um skóggræðslu á landinu þykir því nærri sér höggvið og óttast að ef stjórnvöld halda áfram með áform í anda lúpínuskýrslunnar, muni röðin brátt koma að trjá- og runnategundum sem notaðar eru í skógrækt. Nýleg norsk lagasetning sýni hvað getur gerst ef menn sofna á verðinum gagnvart öfgasinnuðum náttúruverndarmönnum.

 

Útlendingahatur og aðskilnaðarstefna? 

Sumum náttúruverndarsinnum verður tíðrætt um innfluttar eða framandi ágengar tegundir og vilja gera stóran mun á þeim og innlendum ágengum tegundum. Hver eru rökin fyrir því að skipta íslensku flórunni í innflutta og innlenda tegundahópa? Við skulum vera þess minnug að eftir ísöldina voru plöntutegundir á Íslandi líklega aðeins fjórðungur af þeim fjölda sem nú er hér. Sennilega hefur um fjórðungur af íslensku flórunni flust hingað með mönnum, viljandi eða óviljandi eftir landnám. Þar á meðal eru líkast til allar íslensku belgjurtirnar. Á síðustu öld var farið að flytja nýjar plöntutegundir markvisst inn í landið til reynslu, en í gegn um tíðina hafa margar tegundir slæðst hingað meira og minna af tilviljun.

Í þeirri viðleitni að flokka plöntutegundir í íslenskar og framandi tegundir lentu menn í þeim vanda að ákveða hve lengi innflutt tegund þyrfti að hafa verið á landinu til þess að hafa öðlast þegnrétt og teljast íslensk. Átti einungis að telja þær tegundir íslenskar sem sannanlega voru hér við landnám? Ekki gekk það vegna þess að engin veit með vissu um allar tegundir sem þá kunna að hafa verið hér, þótt margar séu þekktar úr jarðlögum. Átti að miða við sautjándu, átjándu eða nítjándu öld þegar meiri heimildir voru tiltækar um flóruna en áður? Einhverra hluta vegna leist mönnum ekki á það og niðurstaðan varð að miða við 3. útgáfu Flóru Íslands sem kom út árið 1948. Allar tegundir sem þar eru skráðar skulu teljast íslenskar, en aðrar teljast innfluttar eða framandi. Höfundum Flóru Íslands var raunar kunnugt um margar tegundir sem voru komnar hingað fyrir árið 1948,  en höfðu óverulega útbreiðslu og var því ýmist sleppt eða skráðar sem slæðingar.

Alaskalúpínan er ein þeirra tegunda sem ekki náði neinni útbreiðslu fyrr en eftir miðja síðustu öld, þótt hún hafi komið til landsins miklu fyrr. Einkum voru það skógræktarmenn sem dreifðu lúpínunni til að byrja með, vegna þess að þeir höfðu yfir friðuðu landi að ráða. Sú sögulega staðreynd skýrir kannski að hluta viðbrögð þeirra við eyðingaráformunum. Seinna tók svo Landgræðslan lúpínuna í sína þjónustu og sáði sums staðar í stór og samfelld uppgræðslusvæði. Líkja má þeirri breytingu sem lúpínan hefur víða valdið á gróðurfari við kraftaverk. Lúpínan er fyrir löngu komin um allt land og dreifist nokkuð hratt út um mela og grundir þar sem ekki er sauðfjárbeit. Í augum sumra málsmetandi náttúrufræðinga er hún samt enn framandi tegund. Þessu er öfugt farið þegar um skordýr eða fugla er að ræða. Dýrin, t.d. vespur, hunangsflugur eða glókollur, eru orðnir íslenskir borgarar örfáum árum eftir að þeirra verður fyrst vart. Þau þurfa aðeins að sanna að þau geti lifað hér.

 

 

Leggjum niður aðskilnaðarstefnuna

Mín tillaga er sú að við hættum að skipta íslensku flórunni í íslenskar og útlenskar (framandi) tegundir. Allar plöntutegundir sem nú eru í landinu og hafa náð einhverri útbreiðslu ætti að telja íslenskar. Það þýðir auðvitað ekki að okkur líki vel við þær allar eða að sumar þeirra geti ekki orðið illgresi við einhverjar aðstæður. Tegundir sem lengi hafa verið í landinu geta verið til ama engu síður en tegundir sem nýlega hafa flust til landsins. Og til eru tegundir sem margir hefðu óskað að ekki hefðu borist til landsins. En við verðum að sættast við flóruna okkar eins og hún er.

 

Óæskilegar tegundir

 

Hafandi sagt þetta vil ég taka skýrt fram að til eru tegundir, sem enn eru ekki hingað komnar, sem við óskum ekki eftir að fá til landsins. Þar má nefna ýmsar eitraðar tegundir, þyrnóttar tegundir eða illgresi (ágengar tegundir) af ýmsu tagi. Óvíst er hverjar þeirra myndu ná hér fótfestu, en með hlýnandi veðurfari aukast líkur á því. Þess vegna ætti umhverfisráðuneytið að setja sem fyrst saman lista yfir plöntutegundir sem óleyfilegt sé að flytja inn í landið. Landbúnaðarráðuneytið setti fyrir löngu reglugerð með lista yfir þá plöntuskaðvalda sem bannað er að flytja til landsins. Það er miklu betri og skilvirkari leið en sú sem umhverfisráðuneytið hugðist fara, sem sé að banna innflutning allra nýrra plöntutegunda. Þar var þó gert ráð fyrir að hægt væri að veita undanþágu að fenginni umsögn NÍ. Vandamálið er þó alltaf að ná að kynna slíkar reglur fyrir almenningi. Bannlista þarf að kynna rækilega ef bannið á að ná tilgangi sínum.

 

Alaskalúpína er ein af mörgum belgjurtategundum 

En svo aftur sé vikið að lúpínunni. Vel má vera að alaskalúpína hafi verið ofnotuð á ýmsum stöðum og menn hafi ekki sést fyrir í ákafa sínum við að bæta landið. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að nýta ætti fleiri tegundir belgjurta til landbóta. Trjátegundir eins og elri mætti einnig nota víðar. Í nýútkomnu Skógræktarriti er ágætt yfirlit yfir tegundir belgjurta sem til greina koma. Vandinn er sá að fræ af flestum þeirra er ekki á markaði. Þó er fræ af smárategundunum fáanlegt, en þar er þó um stofna að ræða sem ætlaðir eru til túnræktar en ekki landgræðslu. Á hálendi Íslands og við erfið skilyrði á láglendi er þó líklega engin tegund jafnoki alaskalúpínu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Halldór, þessi ritgerð þín er hljómfagur óður til Lúpínunnar, sem ég legg til að verði gerð að Þjóðarblómi Íslands.

 

Ég hallast að því, að það fólk sem ver sínum eigin tíma til að leggja á ráðin um útrýmingu Lúpínunnar hljóti að vera vangefið. Hins vegar ætla ég að þeir sem stunda þessa iðju í vinnutíma hjá valdstjórninni hljóti að vera algjörlega verkefnalausir.

Loftur Altice Þorsteinsson, 26.7.2010 kl. 15:21

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Bestu þakkir fyrir góðan pistil Halldór.

Ég sakna þess að ekki skuli vera hægt að kaupa fræ af hinum fjölmörgu belgjurtum sem fjallað er um í Skógræktarritinu. Vonandi sér einhver þarna markaðstækifæri.

Ágúst H Bjarnason, 26.7.2010 kl. 18:14

3 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Vel mælt, Halldór. Eins og talað úr mínu hjarta.

Fyrst Suðurafríkumönnum tókst á skömmum tíma að kveða niður aðskilnaðarstefnuna og alla þá hjáfræði sem hún grundvallaðist á, ætti slíkt einnig að vera mögulegt á okkar eylandi líffræðilegrar fábreytni!

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 27.7.2010 kl. 17:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband