Færsluflokkur: Vísindi og fræði
20.12.2020 | 13:52
Meiri skógur er þjóðarnauðsyn
Að skapa skóg
Við Íslendingar búum í nánast skóglausu landi. Svo verður að telja þótt fátæklegar leifar af fornum skógum tóri í inndölum. Víða eru þessir gömlu birkiskógar lítils vaxtar og myndu hvergi í grannlöndum okkar flokkast sem skógar. Þetta eru nú samt okkar frumskógar og við fögnum því að þeir skuli vera til og jafnvel vera að breiðast út þar sem þeir fá frið fyrir sauðkindinni og athöfnum manna. En snemma kynntust Íslendingar skógum annarra landa og þeim nytjum sem hafa mátti af þeim og dreymdi um að koma slíkum skógum á fót. Vegna tegundafátæktar íslensku flórunnar voru hér fáar trjátegundir tiltækar. Einu tegundirnar sem gátu talist tré eru ilmbjörk og ilmreynir sem geta vissulega gefið af sér ákveðnar afurðir en timburtré geta þær varla talist. Menn sóttu því tegundir til annarra landa. Margar þeirra vaxa hér vel og geta myndað skóga sem eru mun vöxtulegri en innlendu birkiskógarnir. Þeir skógar henta betur til viðarnytja en okkar gömlu skógar. Þrátt fyrir það er lögð rækt við birkið og engin trjátegund er meira gróðursett en það. Nýverið lauk átaki í söfnun birkifræs og sáningu. Innan fárra ára sést vonandi árangur af því átaki.
Ræktun innfluttra tegunda
Veðurfar á Íslandi er ólíkt því sem þekkist í flestum öðrum löndum og því var óvíst með árangur í skógrækt. Fyrst urðu fyrir valinu tegundir sem algengar eru í skógum Norðurlanda, skógarfura og rauðgreni. Snemma var einnig farið að prófa lerki frá Rússlandi og fjallafuru úr Alpafjöllum. Ekki kunnu allar þessar tegundir alls kostar við sig nema á völdum stöðum og sum kvæmi dóu út. Lerki frá Rússlandi þótti þó snemma efnilegt. Skógarfuran sem kom frá Norður-Noregi þurrkaðist nánast alveg út. Segja má að þáttaskil hafi orðið þegar farið var að planta barrtrjám frá Norður-Ameríku, einkum sitkagreni og stafafuru. Trén voru fyrst og fremst sótt til Alaska. Ekki aðeins lifðu þessar tegundir vel heldur uxu þær sumar einnig mun hraðar en tegundirnar sem fyrr voru reyndar. Frá Alaska kom einnig alaskaösp sem í fyrstu var lítt plantað í skóga, en hefur á síðustu þremur áratugum verið talsvert gróðursett.
Gagnrýni á notkun innfluttra tegunda
Á síðustu áratugum hefur nokkuð borið á andstöðu við ræktun erlendra tegunda í skógrækt. Þetta á ekki aðeins við hér á landi heldur ber víða á slíku. Innfluttar tegundir eru þá gjarnan taldar ógn við náttúruleg vistkerfi. Margar þeirra eru stimplaðar ágengar af einhverjum stofnunum eða sérfræðingum. Í sumum löndum hafa slíkir hópar haft veruleg áhrif á stjórnmálamenn og ákvarðanatökur varðandi skógrækt. Dæmi um það er Noregur. En í öðrum löndum er löng hefð fyrir notkun innfluttra tegunda, t.d. á Bretlandseyjum og í Frakklandi, og þar er fjárhagsleg þýðing innfluttra trjátegunda mikil. Barrtré, svo sem greni, fura og degli vaxa hratt og henta vel sem nytjatré. En í öllum Evrópulöndum er nokkur þrýstingur á aukna fjölbreytni í notkun tegunda. Þar er víða verið að kalla eftir plöntun innlendra tegunda og einkum þá lauftrjáa sem algeng eru í laufskógabeltinu.
Kolefnisbinding trjáa
Á síðustu árum hefur loftslagsumræðan kallað eftir aukinni skógrækt til þess að binda kolefni. Þá skiptir verulegu máli að tré vaxi hratt. Þær trjátegundir sem við höfum möguleika á að rækta á Íslandi vaxa mjög mishratt. Þetta þýðir að til þess að binda sama magn þarf mun stærra svæði ef nota á hægvaxta tegund en ef notuð er tegund sem vex hraðar. Nú er það staðreynd að á Íslandi er nóg landrými fyrir nýskógrækt svo ekkert er því til fyrirstöðu að nota hægvaxta tré til kolefnisbindingar. Í mörgum löndum keppir skógrækt við land til matvælaframleiðslu og þar er mikilvægt að spara land með því að nota uppskerumiklar trjátegundir. En þó að nægt landrými sé fyrir hendi er ódýrara að planta hraðvaxta trjátegundum vegna þess að hægt er að ná sama árangri með færri plöntum og á minna landi. Sáning fræs er þó líklega ódýrasta aðferðin og til dæmis hentar sáning birkifræs vel sums staðar á lítt grónu landi. Stafafura og sitkagreni henta einnig vel til sáningar. Alaskaösp vex hraðast allra hérlendra trjátegunda og getur við góðar aðstæður bundið yfir 20 tonn af koltvíoxíði á hektara árlega. Barrtrén binda oftast ekki nema helming á við öspina og birkiskógur á bilinu tvö til fjögur tonn. Samkvæmt mælingum Skógræktarinnar eru meðaltalstölurnar þessar: Alaskaösp 16,2 tonn CO2 á ha á ári, sitkagreni 8,3 tonn, stafafura 7,0 tonn, rússalerki 7,2 tonn og ilmbjörk 3,1 tonn. Þetta þýðir að öspin þarf fimm sinnum minna land en birkið til þess að binda sama magn koltvíoxíðs á líftíma sínum. Trén færa einnig mikið kolefni niður í jarðveginn.
Nýting trjátegunda
Þó svo að kolefnisbinding sé afar mikilvæg á okkar tímum eru markmiðin með skógrækt fleiri. Þar ber fyrst að nefna viðarnytjar. Í fyllingu tímans fer skógurinn að gefa af sér nytjavið sem nýtist til húsbygginga og í húsgagnaframleiðslu. Einnig er önnur nýting viðar í mikilli þróun erlendis. Úr viði er auðvitað unninn pappír, en viður getur verið hráefni í allt sem nú er unnið úr olíu. Sé viður notaður til húsbygginga eða í húsgögn geymist bundið kolefni jafnvel í aldir. Sé viður notaður sem eldsneyti fer kolefnið út í lofthjúpinn, en komi viður í stað jarðefnaeldsneytis, til dæmis í brennsluofnum stóriðjuvera, er sú notkun jákvæð fyrir loftslagið.
Margföldum gróðursetningu trjáa
Í hlýnandi loftslagi framtíðarinnar munu skógar okkar vaxa hraðar en þeir gera nú, og framleiða meiri við. Meiri kolefnisbinding myndi einnig hjálpa okkur við að standa við loftslagssamninga okkar og að losna við stórfelld kaup á losunarheimildum. Fyrir bankahrunið voru gróðursettar sex milljónir trjáplantna árlega en síðan hefur aðeins helmingi þess fjölda verið plantað. Ríkisstjórn Íslands hafði um tíma áform um að fjórfalda gróðursetningu trjáa, einkum með það fyrir augum að auka kolefnisbindingu. Illu heilli voru þau áform lögð á hilluna. Nú eru þó horfur á að fjármagn til skógræktar verði aukið bæði á vegum ríkisins og annarra aðila. Hér á landi eru ræktaðir skógar ungir og nýting þeirra rétt að byrja. En þessir skógar eru vaxandi auðlind. Við eigum mikið af gróðurlitlu landi og við erum rík þjóð og ættum að planta mun fleiri trjám en nú er gert.
21.11.2010 | 12:13
Lífkol - innlegg í kolefnisumræðuna
Um undraefnið lífkol (biochar)
Á síðustu árum hefur mikil umræða orðið um lífkol (biochar, charcoal, agrichar, terra preta) sem jarðvegsbætandi efni. Hér er í rauninni aðeins um hið eldforna efni viðarkol að ræða, en lífkol eru framleidd með það að markmiði að vinna þau í jarðveg og koma þannig kolefni fyrir í varanlega geymslu. Í jarðvegi eyðast kolin á hundruðum eða þúsundum ára, en ferskur lífmassi sem grafinn er í jörðu skilar sínu kolefni út í andrúmsloftið á 10-20 árum. Að auki eykur íblöndun ræktunarjarðvegs með lífkolum plöntuvöxt, einkum í ófrjóum og súrum jarðvegi.
Það er langt í frá að þessi aðferð til þess að auka frjósemi jarðvegs sé ný af nálinni. Indíánar á Amazón-svæðinu hafa notað hana í meira en tvöþúsund ár til þess að gera ófrjóan regnskógajarðveginn frjósamari. Við það dökknar hann og kallast terra preta á portúgölsku, en lífkolin hafa einnig verið kölluð þessu nafni víða um heim.
Lífkol eða viðarkol eru framleidd með bruna þar sem lítið eða ekkert súrefni kemst að. Þau eru langt frá því að vera einsleit afurð. Við framleiðslu þeirra er ýmiss konar lífmassi notaður sem hráefni. Það getur verið trjáviður, gras, hálmur, mykja og fleira, og hin endanlega lífkolaafurð veltur á því hvert hráefnið er. Framleiðsluaðferðin sem nefnist kolun (pyrolysis) ræður miklu, einkum hversu hár hitinn verður og hversu langur tími er notaður til upphitunar. Mest af lífkolum og lífolíu (bio-oil) fæst við 300-500 gáðu hita, en sé hitinn hærri breytist sífellt meira af hráefninu í lofttegundir (afgas) svo sem kolmónoxíð, metan og vetni. Sé gras eða hálmur notað sem hráefni umbreytast 20-30% af efninu í lífkol, en 42-62% sé trjáviður notaður í framleiðsluna og nýjustu tækni beitt. Afgasið er hægt að nýta á ýmsan hátt til orkuframleiðslu. Hér á landi munu afurðir úr skógum verða aðalhráefnið. Þá mætti nýta bolviðinn í framleiðslu viðarkola fyrir kísilmálmverksmiðjur, en greinar og lélegra efni yrði nýtt sem lífkol. Hálmur af kornökrum hentar líka vel í lífkol.
Myndin sýnir hve fjölbreytt hráefni er hægt að nota til þess að framleiða lífkol og hvaða afurðir kolunin gefur af sér.
Áhrif á jarðveg og plöntuvöxt
Lífkolin hafa gífurlega stórt yfirborð sem allir frumuveggir og æðar í plöntuvefnum mynda. Eitt gramm af lífkolum getur þannig haft yfir 300 m2 yfirborð, sem er ótrúleg tala. Þetta mikla yfirborð skapar stóraukna jónskiptahæfni í jarðvegi svo og aukið yfirborð fyrir örverur, sem eru þarna í skjóli fyrir samkeppnis- og afránsörverum og í stöðugu umhverfi.
Áhrif á plöntuvöxt eru fyrst og fremst talin stafa af því að jónskiptaeiginleikar lífkolanna bæti nýtingu næringarefna. Fleira hefur þó verið nefnt, t.d. að kolin veiti gagnlegum örverum, eins og svepprótarsveppum, ákjósanleg skilyrði.
Talið er að lífkolin bindi stóran hluta af nituroxíðum sem allajafna rjúka úr jarðvegi og einnig ammóníak sem annars mundi tapast úr jarðveginum. Misvísandi vísbendingar eru varðandi metan; nokkrar rannsóknir sýna minnkun, en a.m.k. ein sýnir aukningu á útstreymi með tilkomu lífkola.
Lífkol eru basísk og hækka sýrustig jarðvegs verulega séu þau plægð niður í hann. Að hluta til er hægt að rekja aukinn plöntuvöxt í súrum jarðvegi sem lífkolum hefur verið blandað í, til hækkunar sýrustigs. Lífkolin koma þannig í stað kölkunar.
Aukning í niturnámi hefur mælst hjá belgjurtum sem ræktaðar voru í lífkolajarðvegi. Áhrifin voru rakin til betra aðgengis Rhizobium-baktería að Mo og B, en að einhverju leyti einnig til aukins aðgengis plantnanna að P , Ca og K ásamt hækkun á pH.
Kolefnisbinding
Ástæða þess mikla áhuga á lífkolum sem blossað hefur upp á síðustu árum má rekja til umræðunnar um takmörkun á losun gróðurhúsaloftegunda, og þá einkum koldíoxíðs. Notkun lífeldsneytis, sem er kolefnishlutlaust, hefur verið að aukast, t.d. brennsla lífmassa og framleiðsla á orkuefnum úr honum. Hugmyndin um að framleiða viðarkol til geymslu í jarðvegi mun hafa komið fram fyrir tveimur áratugum, en vakti litla athygli. Það sem gaf þessari hugmynd byr undir báða vængi er aukinn þungi í kolefnisumræðunni í heiminum og svo sú staðreynd að íblöndun jarðvegs í ökrum með lífkolum getur aukið uppskeru. Þar með eru slegnar tvær flugur í einu höggi. Unnið hefur verið að því að fá þessa aðferð til kolefnisbindingar viðurkennda í loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ef tekst að sýna fram á varanleika þessarar geymsluaðferðar virðast miklar líkur á að það takist að fá slíka viðurkenningu. Rannsóknir hafa flestar verið gerðar í hitabeltinu, en ending kolanna í jarðvegi tempraða beltisins og áhrif á plöntuvöxt þar þarf að rannsaka betur. Sveiflur á milli frosts og þíðu gætu t.d. aukið niðurbrot lífkola. Eins þarf að rannsaka betur jarðvegsáhrif og endingu hinna ólíku lífkolagerða.
Heimildir
Lehmann, J., J. Gaunt and M. Rondon (2006). Bio-char sequestration in terrestrial ecosystems - A review. Mitigation and Adaptation Strategies for Global Change 11: 403-427
Lehmann J. and M. Rondon (2006) Bio-char soil management on highly weathered soils in the humid tropics. In Uphoff N et al. (ed.) Biological Approaches to Sustainable Soil Systems. CRC Press, Boca Raton , FL. pp.517-530
Major J, Rondon M, Molina D, Riha S and Lehmann J (2010). Maize yield and nutrition during 4 years after biochar application to a Colombian savanna oxisol. Plant and Soil 333: 117-128
Rillig, Matthias C., Marcel Wagner, Mohamed Salem, Pedro M. Antunes, Carmen George, Hans-Günter Ramke, Maria-Magdalena Titirici and Markus Antonietti (2010). Material derived from hydrothermal carbonization: Effects on plant growth and arbuscular mycorrhiza. Applied Soil Ecology Volume 45, Issue 3, July 2010, Pages 238-242
Rondon, Marco A. & Johannes Lehmann & Juan Ramírez & Maria Hurtado (2007). Biological nitrogen fixation by common beans (Phaseolus vulgaris L.) increases with bio-char additions. Biol Fertil Soils 43:699-708
Van Zwieten, L. & S. Kimber & S. Morris & K. Y. Chan & A. Downie & J. Rust & S. Joseph & A. Cowie (2010). Effects of biochar from slow pyrolysis of papermill waste on agronomic performance and soil fertility. Plant Soil 327:235-246
Vefslóðir
http://www.biochar-international.org/ukbrc
http://www.biochar.info/biochar.biochar-articles.cfml
http://news.bbc.co.uk/2/hi/science/nature/7924373.stm
http://www.bbc.co.uk/blogs/thereporters/richardblack/2010/08/last_year_you_could_hardly.html
http://eusoils.jrc.ec.europa.eu/ESDB_Archive/eusoils_docs/other/EUR24099.pdf
http://pubs.acs.org/doi/abs/10.1021/ef9501859
Vísindi og fræði | Breytt 18.1.2018 kl. 16:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.7.2010 | 10:41
Lúpínuumræðan sett í samhengi
Það voraði vel í ár og sumarið hefur verið gróðri hagstætt, svo allt í lífríkinu hefur verið fyrr á ferðinni en venja var fyrr á árum. Í síðasta mánuði var blómgun margra trjáa og runna óvenju mikil og margar jurtir áttu einnig sitt blómaskeið í júní. Ein af þeim jurtum sem setur mikinn svip á júnímánuð víða í grennd við þéttbýli er alaskalúpínan, sem er plöntutegund sem óþarft er að kynna. Umræður um þessa plöntu hafa oft verið líflegar, en þó líklega aldrei eins og nú. Orsökin er skýrsla Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ) og Landgræðslu ríkisins (Lr) um alaskalúpínu og skógarkerfil og yfirlýsingar um aðgerðir gegn lúpínu og greinaskrif í framhaldinu.
Viðbrögð skógræktarfólks
Viðbrögð margra aðdáenda lúpínunnar hafa verið hörð. Stofnuð hefur verið fésbókarsíða til stuðnings lúpínunni og Skógræktarfélag Íslands og Skógrækt ríkisins hafa gagnrýnt skýrsluna harðlega. Umhverfisráðherra hefur látið þessa gagnrýni sem vind um eyrun þjóta og heldur fast við sín áform um takmarkanir á notkun lúpínu og áform um eyðingu hennar á svæðum þar sem sérfæðingar NÍ telja að hún eigi ekki heima.
Rök fyrir aðgerðum og mótrök
Höfuðrök lúpínuandstæðinga hníga að því að lúpínan ógni öðrum plöntutegundum og vistkerfum og dragi úr líffræðilegum fjölbreytileika. Lúpínuvinir draga allt þetta í efa. Engum plöntutegundum sé ógnað né heldur séu vistkerfi í hættu vegna lúpínunnar. Þeir telja einnig að NÍ túlki hugtakið líffræðilegan fjölbreytileika mjög þröngt, þar sem aðeins sé litið á fjölda þeirra plöntutegunda sem lúpínan kann að yfirskyggja, en ekkert tillit tekið til aukins fjölbreytileika örvera og dýralifs í kjölfar lúpínunnar. Höfundar skýrslunnar fyrrnefndu kæri sig einnig kollótta um aukna framleiðslu og líffræðilega burðargetu hins nýja eða breytta vistkerfis.
Framandi tegundir í skógrækt
Eitt atriði skýrir þó andstöðu skógræktarmanna öðru fremur. Það er sú áhersla sem oft er lögð á skaðsemi innfluttra eða framandi ágengra plantna, eins og það er orðað. Fullyrðing eins og: Þessi tegund er innflutt og á því ekki heima hér, fer mjög fyrir brjóstið á skógræktarfólki, sem skýrist auðvitað af því að flestar trjátegundir sem hér eru ræktaðar eru innfluttar. Áhugafólki um skóggræðslu á landinu þykir því nærri sér höggvið og óttast að ef stjórnvöld halda áfram með áform í anda lúpínuskýrslunnar, muni röðin brátt koma að trjá- og runnategundum sem notaðar eru í skógrækt. Nýleg norsk lagasetning sýni hvað getur gerst ef menn sofna á verðinum gagnvart öfgasinnuðum náttúruverndarmönnum.
Útlendingahatur og aðskilnaðarstefna?
Sumum náttúruverndarsinnum verður tíðrætt um innfluttar eða framandi ágengar tegundir og vilja gera stóran mun á þeim og innlendum ágengum tegundum. Hver eru rökin fyrir því að skipta íslensku flórunni í innflutta og innlenda tegundahópa? Við skulum vera þess minnug að eftir ísöldina voru plöntutegundir á Íslandi líklega aðeins fjórðungur af þeim fjölda sem nú er hér. Sennilega hefur um fjórðungur af íslensku flórunni flust hingað með mönnum, viljandi eða óviljandi eftir landnám. Þar á meðal eru líkast til allar íslensku belgjurtirnar. Á síðustu öld var farið að flytja nýjar plöntutegundir markvisst inn í landið til reynslu, en í gegn um tíðina hafa margar tegundir slæðst hingað meira og minna af tilviljun.
Í þeirri viðleitni að flokka plöntutegundir í íslenskar og framandi tegundir lentu menn í þeim vanda að ákveða hve lengi innflutt tegund þyrfti að hafa verið á landinu til þess að hafa öðlast þegnrétt og teljast íslensk. Átti einungis að telja þær tegundir íslenskar sem sannanlega voru hér við landnám? Ekki gekk það vegna þess að engin veit með vissu um allar tegundir sem þá kunna að hafa verið hér, þótt margar séu þekktar úr jarðlögum. Átti að miða við sautjándu, átjándu eða nítjándu öld þegar meiri heimildir voru tiltækar um flóruna en áður? Einhverra hluta vegna leist mönnum ekki á það og niðurstaðan varð að miða við 3. útgáfu Flóru Íslands sem kom út árið 1948. Allar tegundir sem þar eru skráðar skulu teljast íslenskar, en aðrar teljast innfluttar eða framandi. Höfundum Flóru Íslands var raunar kunnugt um margar tegundir sem voru komnar hingað fyrir árið 1948, en höfðu óverulega útbreiðslu og var því ýmist sleppt eða skráðar sem slæðingar.
Alaskalúpínan er ein þeirra tegunda sem ekki náði neinni útbreiðslu fyrr en eftir miðja síðustu öld, þótt hún hafi komið til landsins miklu fyrr. Einkum voru það skógræktarmenn sem dreifðu lúpínunni til að byrja með, vegna þess að þeir höfðu yfir friðuðu landi að ráða. Sú sögulega staðreynd skýrir kannski að hluta viðbrögð þeirra við eyðingaráformunum. Seinna tók svo Landgræðslan lúpínuna í sína þjónustu og sáði sums staðar í stór og samfelld uppgræðslusvæði. Líkja má þeirri breytingu sem lúpínan hefur víða valdið á gróðurfari við kraftaverk. Lúpínan er fyrir löngu komin um allt land og dreifist nokkuð hratt út um mela og grundir þar sem ekki er sauðfjárbeit. Í augum sumra málsmetandi náttúrufræðinga er hún samt enn framandi tegund. Þessu er öfugt farið þegar um skordýr eða fugla er að ræða. Dýrin, t.d. vespur, hunangsflugur eða glókollur, eru orðnir íslenskir borgarar örfáum árum eftir að þeirra verður fyrst vart. Þau þurfa aðeins að sanna að þau geti lifað hér.
Leggjum niður aðskilnaðarstefnuna
Mín tillaga er sú að við hættum að skipta íslensku flórunni í íslenskar og útlenskar (framandi) tegundir. Allar plöntutegundir sem nú eru í landinu og hafa náð einhverri útbreiðslu ætti að telja íslenskar. Það þýðir auðvitað ekki að okkur líki vel við þær allar eða að sumar þeirra geti ekki orðið illgresi við einhverjar aðstæður. Tegundir sem lengi hafa verið í landinu geta verið til ama engu síður en tegundir sem nýlega hafa flust til landsins. Og til eru tegundir sem margir hefðu óskað að ekki hefðu borist til landsins. En við verðum að sættast við flóruna okkar eins og hún er.
Óæskilegar tegundir
Hafandi sagt þetta vil ég taka skýrt fram að til eru tegundir, sem enn eru ekki hingað komnar, sem við óskum ekki eftir að fá til landsins. Þar má nefna ýmsar eitraðar tegundir, þyrnóttar tegundir eða illgresi (ágengar tegundir) af ýmsu tagi. Óvíst er hverjar þeirra myndu ná hér fótfestu, en með hlýnandi veðurfari aukast líkur á því. Þess vegna ætti umhverfisráðuneytið að setja sem fyrst saman lista yfir plöntutegundir sem óleyfilegt sé að flytja inn í landið. Landbúnaðarráðuneytið setti fyrir löngu reglugerð með lista yfir þá plöntuskaðvalda sem bannað er að flytja til landsins. Það er miklu betri og skilvirkari leið en sú sem umhverfisráðuneytið hugðist fara, sem sé að banna innflutning allra nýrra plöntutegunda. Þar var þó gert ráð fyrir að hægt væri að veita undanþágu að fenginni umsögn NÍ. Vandamálið er þó alltaf að ná að kynna slíkar reglur fyrir almenningi. Bannlista þarf að kynna rækilega ef bannið á að ná tilgangi sínum.
Alaskalúpína er ein af mörgum belgjurtategundum
En svo aftur sé vikið að lúpínunni. Vel má vera að alaskalúpína hafi verið ofnotuð á ýmsum stöðum og menn hafi ekki sést fyrir í ákafa sínum við að bæta landið. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að nýta ætti fleiri tegundir belgjurta til landbóta. Trjátegundir eins og elri mætti einnig nota víðar. Í nýútkomnu Skógræktarriti er ágætt yfirlit yfir tegundir belgjurta sem til greina koma. Vandinn er sá að fræ af flestum þeirra er ekki á markaði. Þó er fræ af smárategundunum fáanlegt, en þar er þó um stofna að ræða sem ætlaðir eru til túnræktar en ekki landgræðslu. Á hálendi Íslands og við erfið skilyrði á láglendi er þó líklega engin tegund jafnoki alaskalúpínu.
Vísindi og fræði | Breytt 18.1.2018 kl. 16:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.7.2010 | 15:59
Akurskógrækt og lífmassi
Einföld skilgreining á skógrækt er að hún sé fræðigreinin sem fjallar um að planta trjám og hirða um þau. Skógfræðingar þætta saman mannafla, fjármagn, landnotkun, vistfræðiþekkingu og verkkunnáttu á þann hátt að til verði skógur sem uppfyllir markmið ræktunarinnar. En hvað er þá tré? Tré hefur verið skilgreint sem viðarkennd fjölær planta sem hefur einn megin stofn og oftast greinilega krónu. Runnar, sem eru margstofna trjákenndar plöntur eru þá ekki tré samkvæmt þessari skilgreiningu og ræktun runna er ekki skógrækt. Mörk milli trjáa og runna eru hins vegar oft óljós, sem sést vel í íslenska birkiskóginum, og því e.t.v. rétt að skilgreina skógrækt sem ræktun og umhirðu viðarplantna.
Sé litið á tilganginn með skógrækt vandast málið enn frekar. Í sinni einföldustu mynd er skógrækt fólgin í umsjón með náttúruskógum. Stundum er einungis um aðgerðir eins og friðun eða takmörkun á fjölda beitardýra að ræða. Í öðrum tilfellum er umhirðan fólgin í lágmarks grisjun og því að fjarlægja fallin tré. Jafnvel stígagerð fyrir ferðamenn og sala veiðileyfa fellur undir starfssvið skógræktar.
Á hinum jaðri skógræktar er ræktun sem miðar að framleiðslu viðar og lífmassa með hámarks arðsemi í huga. Slík skógrækt á margt sammerkt með akuryrkju. Enda er það svo að landeigandinn stendur iðulega frammi fyrir vali um það hvort hann vill rækta tré eða runna til framleiðslunnar eða hvort hann á að veðja á stórvaxnar grastegundir, hamp eða repju, svo dæmi séu tekin. Þá er að sjálfsögðu um lífmassaframleiðslu að ræða en ekki framleiðslu timburs.
Skógrækt sem miðar að lífmassaframleiðslu, og mætti nefna akurskógrækt, hefur mun styttri ræktunarlotu en skógrækt sem ætluð er til timburframleiðslu. Algeng ræktun varir í 3-20 ár. Ræktun í 3-8 ár nefnist á ensku short rotation coppice (SRC) og hefur verið nefnd teinungarækt og ef ræktunarlotan er 8-20 ár er skógræktin nefnd short rotation forestry (SRF), sem gæti kallast skógrækt með stutta lotu eða skammlotuskógrækt. Í fyrrnefndu ræktunina veljast oft víðitegundir, en aspir, elri, Eucalyptus (tröllatré) o.fl. í lengri ræktunarlotuna. Lengri ræktunin getur gefið af sér borðvið við góð skilyrði.
Í grannlöndum okkar og í Norður-Ameríku hefur skógrækt til lífmassaframleiðslu færst mjög í vöxt. Viðurinn hefur verið nýttur til pappírsframleiðslu og til beinnar brennslu, en nú er í vaxandi mæli leitast við að þróa hagkvæmar aðferðir til þess að framleiða úr lífmassanun fljótandi eldsneyti, einkum vínanda (etanól). Töluvert hefur verið framleitt af vínanda með með bruggun korns, en mörgum þykir það sóun, þar sem korn ætti fremur að nýta til manneldis eða fóðurs.
Spyrja má hvort íslensk skógrækt eigi eitthvað erindi í orkuskógrækt. Í ljósi mikillar innlendrar og sjálfbærrar orkuframleiðslu kann það að þykja ólíklegt. En þá þarf að hafa í huga að um þriðjungur orku okkar fer til þess að knýja samgöngu- og flutningatæki og fiskiskipaflotann. Etanól og lífdísill gætu þegar tímar líða orðið mikilvægt eldsneyti og leyst jarðefnaeldsneyti af hólmi.
Á Íslandi eru svæði þar sem lítið er um jarðhita. Þar gæti hentað að brenna viði til húsakyndingar. Á Hallormsstað á Héraði er farið af stað tilraunaverkefni með fjarvarmaveitu frá kyndistöð sem brennir viði.
Í vissar gerðir málmframleiðslu þarf kolefnisgjafa. Sumarið 2009 skrifuðu Skógrækt ríkisins og Elkem Ísland undir samning um að Skógræktin útvegaði 1000 tonn af grisjunarviði úr íslenskum skógum í tilraunaverkefni þar sem ferskt viðarkurl er notað sem kolefnisgjafi í stað jarðefnaeldsneytis í járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga. Reynist viðarkurlið vel er stefnt að langtímasamningi um notkun íslensks iðnviðar á Grundartanga. Ljóst er að þá verður þörf fyrir mörg þúsund tonn af kurli árlega. Ásamt Skógrækt ríkisins stóðu Landsamtök skógareigenda, Skógræktarfélag Íslands og skógræktarfélögin í nágrenni verksmiðjunnar að samningsgerðinni.
Mikið magn af kurli úr íslenskum viði er nú í notað sem undirburður undir hesta, svín og fiðurfénað. Sá markaður fyrir íslenskt hráefni hefur vaxið mjög eftir að gengi krónunnar féll og innflutningur á spónum og kurli varð óhagkvæmur.
Tré fyrir lífmassaskógrækt
Í mörgum íslenskum skógum er orðið tímabært að grisja. Það er einkum viður úr þeirri grisjun sem nú er nýttur í framleiðslu undirburðar og í verkefnið á Grundartanga. Íslenskir skógar sem komnir eru á grisjunarstig eru ekki miklir að vöxtum og því tímabært að fara að huga að skógrækt sem miðar að hagkvæmri framleiðslu á lífmassa fyrir umræddan markað og til orkuefnaframleiðslu.
Vöxtur trjáa hér á landi vissulega minni en við bestu skilyrði erlendis, en þessi bestu skilyrði eru óvíða, og mælt í massa er vöxturinn alls ekki svo lítill á Íslandi sé hann borinn saman við vöxt í öðrum norðlægum löndum. Viður er þar að auki dýr í flutningi og er flutningskostnaður um fjórðungur til þriðjungur af verðmæti innflutts iðnviðar. Einnig má nefna að kostnaður við að koma upp iðnviðarskógi hér á landi er líklega mun minni en víða erlendis vegna minni stofnkostnaðar. Verð á landi er hér lægra en víðast hvar í þéttbýlum landbúnaðarlöndum. Hér er girðingarkostnaður lægri en víða erlendis þar sem verjast þarf nagdýrum og hjartardýrum. Kostnaðar við eyðingu illgresis er einnig minni í íslenskri skógrækt en víða gerist erlendis.
Með kynbótum og úrvali getum við eignast klóna og stofna sem vaxa mun hraðar en þau tré sem nú eru ræktuð og bætt þannig samkeppnisstöðu okkar. Einfaldast og fljótlegast er að kynbæta víði og ösp. Kynbætur á þessum ættkvíslum eiga sér langa sögu á meginlandi Evrópu og í Ameríku. Hér hefur töluvert verið unnið að klónaprófunum á víði og ösp, og þá aðallega unnið með óbreyttan efnivið frá Alaska. Aspir fóru að bera fræ hér á landi á áttunda áratug síðustu aldar. Á Akureyri var mikil fræmyndun laust fyrir 1980 og var þá safnað fræi. Af því eru komnir nokkrir klónar sem eru í tilraunum Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá. Á Hvolsvelli var safnað fræi 1983 og eru klónar af því fræi í tilraunum. Fyrsta skipulega stýrða víxlun var gerð á Mógilsá 1988 í tengslum við iðnviðarverkefnið sem þá stóð til að setja af stað. Það var víxlun milli Iðunnar og Keisara, en 25 klónar af þeirri víxlun eru nú í Hellisskógi við Selfoss og víðar á Suðurlandi. Árið 1995 var víxlað saman nokkrum klónum frá suðurströnd Alaska og fóru afkvæmin í tilraunir á tveim stöðum á Suðurlandi. Stýrðar víxlanir á milli margra ólíkra klóna af alaskaösp voru gerðar árin 2002, 2004 og 2006. Afkvæmaprófanir úr þeim víxlunum hafa verið lagðar út víða á landinu, og vorið 2008 var byrjað að velja efnileg tré úr þessum tilraunum. Árið 2007 voru framleiddir tegundablendingar af ösp, þar sem alaskaösp og sléttuösp (Populus deltoides) var víxlað, og úr þeim efniviði er nú verið að velja efnilega klóna til prófunar.
Mikið verk er óunnið við að prófa allan þann efnivið sem orðið hefur til í fyrrnefndum verkefnum. Æskilegt væri að hefja kynbætur á víði og jafnvel elri og reyni, með það að markmiði að fá fram klóna og stofna sem henta í teinungarækt eða skammlotuskógrækt til lífmassaframleiðslu. Því miður er takmörkuðu fjármagni veitt til kynbótaverkefna af opinberri hálfu, og erfiðlega gengur að fá rannsóknasjóði til þess að styrkja verkefni sem taka langan tíma í framkvæmd.
Erlendis er víðir mest notaður í teinungarækt (SRC) en ösp í skógrækt með stutta lotu (SRF). Víðirinn er sleginn á 3-5 ára fresti og þetta endurtekið a.m.k. fjórum sinnum á sömu plöntunum. Öspin er felld á bilinu 8-20 ára og stundum aðeins uppskorin einu sinni og þá plantað aftur eða landið tekið til annarra nota. Æskilegt er talið að stofnar nái 15 sm þvermáli í brjósthæð þegar trén eru felld. Bestu klónar sem völ er á hér á landi gætu hugsanlega náð þessu marki við 15-20 ára aldur og væru trén þá 13-16 metra há. Einnig mætti nota valda asparklóna í teinungarækt og e.t.v. uppskera á 5-6 ára fresti. Í þá ræktun þarf að nota klóna sem mynda fljótt marga sprota frá stubbum eftir að trén hafa verið höggvin.
Fleiri trjátegundir koma til greina í akurskógrækt. Má þar t.d. nefna elritegundir og reynivið.
Kostir akurskógræktar
Fyrir landeigendur hefur skammtímaskógrækt af því tagi sem hér hefur verið lýst ýmsa kosti. Mikilvægast er að skógareigandinn fær tekjur sínar mun fyrr en ef um hefðbundna skógrækt er að ræða. Eftir að ræktunarlotu lýkur getur hann tekið landið til annarra nota ef honum sýnist svo. Það þarf einnig mun minna land fyrir framleiðsluna en venjulega fer undir hefðbundinn skóg. Oft er talað um að skógrækt keppi um land við kornrækt og aðra fóður- eða matvælaframleiðslu. Það er varla tilfellið hér á landi. Íslenskar bújarðir eru yfirleitt það stórar að ekki er þörf á að nýta allt landið fyrir fóðurrækt. Ræktun hraðvaxta trjátegunda hentar oft vel á landi sem er ekki heppilegt til kornræktar eða túnræktar, t.d. á framræstum mýrum eða grýttu landi. Það er einnig kjörið að skipuleggja skógræktina þannig að skógurinn veiti skjól fyrir aðra ræktun og búpening. Allt mælir því með því að hefja sem fyrst tilraunir með akurskógrækt. Á næstu árum munum við vonandi eignast úrval klóna af ösp og e.t.v. fleiri trjátegundum sem henta fyrir akurskógrækt í öllum landshlutum.
Þessi grein birtist örlítið stytt og breytt í blaði Landssamtaka skógareigenda í vor.
Vísindi og fræði | Breytt 18.1.2018 kl. 16:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2009 | 20:34
Evrópulerki er framtíðartré
Það eru ekki margar trjátegundir sem notaðar eru í íslenskri skógrækt. Með hlýnandi loftslagi má vænta þess að tegundir sem þurfa lítið eitt lengri og hlýrri sumur en hér eru að jafnaði, nái að festa sig í sessi sem skógartré. Ein þessara trjátegunda er evrópulerki.
Evrópulerki (Larix decidua)
Lerki hefur vaxið á Íslandi í nærri eina öld og hefur rússalerki reynst vel í skógrækt á Norður- og Austurlandi. Á Suðurlandi hefur það átt fremur erfitt uppdráttar. Síberíulerki hefur reynst enn ver á sunnanverðu landinu og er víða að veslast upp. Evrópulerki á sér langa sögu hér á landi en ekki eru til mörg tré af því og það hefur lítið verið notað í skógrækt. Frægt er tréð á Núpi í Dýrafirði sem nú er aldargamalt.
Á myndinni er tré við Brúnaveg 8 í Reykjavík, sem Skógræktarfélag Reykjavíkur valdi sem tré mánaðarins fyrir nóvember 2008. Það mælist 13 metra hátt og ummál stofns í 1,3 m. hæð er 2,06 m. Þvermál krónu um 11 metrar. Líklega gróðursett 1943.
Á Norðurlandi finnast einnig stæðileg tré af evrópulerki, t.d. þetta tré á Akureyri.
Slíkir risar gefa vissulega vonir um að þessi tegund geti átt sér bjarta framtíð á landinu sem skógartré. Vaxtarkraftur og seigla þeirra trjáa af evrópulerki sem til eru hér á landi gaf tilefni til þess að prófa ýmis kvæmi frá mismunandi stöðum í náttúrulegum heimkynnum tegundarinnar. Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá stofnaði til kvæmatilrauna með evrópulerki á nokkrum stöðum á landinu á árunum 1996 til 1998.
Myndin hér fyrir neðan er einmitt af evrópulerki á Mógilsá.
Um evrópulerki
Evrópulerki vex til fjalla í Mið-Evrópu þar sem það nær hæst í 2400 m.h.y.s. Það nær 25-42 metra hæð. Það er oft beinvaxið og keilumyndað á unga aldri, en krónan verður oft umfangsmikil á gömlum trjám. Evrópulerki getur orðið mjög gamalt tré. Á myndinni sést 1000 ára gamalt tré í Val Malenco á Ítalíu.
Þegar reynt er að rækta evrópulerki á láglendi á meginlandi Evrópu reynist það oft viðkvæmt fyrir sjúkdómum. Betur gengur að rækta þar blendinga þess og japanslerkis, svonefnt sifjalerki. Hér á landi hefur sifjalerki eitthvað verið reynt. Efnilegur blendingur af evrópulerki og rússalerki (Hrymur) hefur verið þróaður af Þresti Eysteinssyni hjá Skógrækt ríkisins.
Evrópulerki skiptist í nokkrar deilitegundir eða afbrigði og er flokkunarfræðin nokkuð á reiki hjá hinum ýmsu grasafræðingum. Hér verður eftirfarandi skipting notuð.
L. decidua ssp. romanica í Rúmeníu
L. decidua ssp. sudedica í Tékklandi og Slóvakíu
L. decidua ssp. polonica í Póllandi
L. decidua ssp. alpina í frönsku, svissnesku og ítölsku Ölpunum.
L. decidua ssp. raetica í Slóveníu.
Kvæmatilraunirnar frá 1996-1998
Á síðasta áratug var ákveðið að leggja út kvæmatilraunir með evróðulerki á vegum Mógilsár. Verkefnisstjóri var Þórarinn Benedikz. Tilraunastaðirnir voru eftirfarandi: Belgsholt í Melasveit, Mosfell í Grímsnesi, Neðri-Dalur í Mýrdal og Lækur í Dýrafirði - allar afskrifaðar 1999, afföll voru yfir 80% og margir ónýtir reitir, og Varmadalur á Rangárvöllum, Vaglir á Þelamörk, Höfði á Völlum á Fljótsdalshéraði og Holtsdalur á Síðu. Síðastnefnda tilraunin er stærst og best heppnuð.
Ýmsar ástæður eru fyrir því að tilraunir hafa eyðilagst. Súr jarðvegur, mikill grasvöxtur og haustfrost eru líklega orsakavaldar, auk þess sem plönturnar voru í misjöfnu ástandi við útplöntun. Það er þó heppilegt að tilraunin í Holtsdal er í lagi, vegna þess að hún er í þeim landshluta þar sem líklegast er að evrópulerki muni verða notað í skógrækt og gefur því leiðsögn um hvaða kvæmi henta best til þeirrar notkunar.
Lerkitilraunin í Holtsdal á Síðu í byrjun október 2008.
Niðurstöður tilraunanna má túlka á þann veg að við aðstæður eins og eru í Holtsdal hefur evrópulerki mikla yfirburði yfir rússalerki og aðrar lerki tegundir hvað vöxt varðar. Á Norður og Austurlandi er hæðarmunur á rússa- og evrópulerki minni og rússalerki hefur að jafnaði betra vaxtarform. Vaxtarform evróðulerkis er hins vegar misjafnt. Margir einstaklingar eru nokkuð beinvaxnir og slík tré finnast í flestum kvæmum. Hlutfall þeirra er þó líklega hæst innan deilitegundarinnar alpina. Meðalhæð evrópulerkikvæmanna var haustið 2008 yfirleitt á fjórða metra, en þar fundust einstaklingar sem voru vel yfir fjóra metra.
Niðurstaðan er sú að evrópulerki á fullan rétt á sér í skógrækt við hálendisbrúnina á Suðurlandi. Með úrvali og kynbótum mætti bæta vaxtarform verulega.
Á myndinni hér fyrir neðan sést vel hvílíka yfirburði evrópulerki hefur yfir rússalerki í Holtsdal. (Rússalerkið er þetta litla og ljósa í bilinu á milli evrópulerkiraðanna).
Helstu ályktanir
Evrópulerki virðist geta hentað til ræktunar á veðursælum stöðum, einkum um sunnanvert landið
Það gæti hentað í skógrækt á svæðum þar sem rússalerki reynist illa
Vöxtur er góður, en formið mjög misjafnt
Lifun í tilraununum var víðast slæm og kanna þarf orsakir affalla í evrópulerki eftir útplöntun
Æskilegt væri að aðlaga bestu kvæmin með úrvali og kynbótum
Ef veðurfar heldur áfram að hlýna er framtíð evrópulerkis björt á Íslandi
(Þessi pistill er byggður á erindi sem bloggari flutti á Fagráðstefnu skógræktargeirans, sem haldin var í Þróttarheimilinu í Laugardal í Reykjavík 16. og 17. apríl 2009. Meðhöfundur er Þórarinn Benedikz. Myndir úr fyrirlestrinum má nálgast á www.skogur.is)
Vísindi og fræði | Breytt 18.1.2018 kl. 16:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2009 | 21:01
Vorið og skógurinn
Eitt af því sem varð til þess að ég stofnaði bloggsíðu var þörfin fyrir að koma á framfæri ýmsum fróðleik um skógrækt og aðra ræktun. Nú eru fyrstu merki vorsins sjáanleg í garðinum mínum og framundan er þessi dásamlegi tími þegar lífið vaknar af vetrardvalanum.Af því tilefni set ég inn fyrsta pistilinn um tré og skóg á bloggsíðuna. Að þessu sinni örstutt yfirlit yfir skógræktarsöguna.
Skógrækt er ekki gömul atvinnugrein á Íslandi. Fyrstu aðgerðir í þá veru að vernda leifar birkiskóganna eru rúmlega aldargamlar. Um það leyti voru einnig gerðar fyrstu tilraunir með gróðursetningu trjátegunda sem ekki höfðu áður vaxið í landinu. Á fjórða áratug síðustu aldar var farið að huga að enn frekari tilraunum með innfluttar tegundir, og þær tilraunir gáfu svo góða raun að upp úr miðri öldinni hóf Skógrækt ríkisins stóraukna ræktun á lerki, sitkagreni, rauðgreni, skógarfuru og stafafuru. Margar aðrar tegundir voru einnig prófaðar í smáum stíl, t.d. alaskaösp. Fljótlega kom í ljós að tegundirnar hentuðu misvel eftir landshlutum og jarðvegsgerðum, og segja má að allan síðari hluta aldarinnar hafi menn verið að læra að þekkja þarfir og duttlunga þessara nýju þegna. Tvö áföll standa upp úr þegar þessi saga er skoðuð, þ.e. aprílhretið mikla vorið 1963 og furulúsarplágan sem gerði nánast út af við skógarfuruna. Af vorhretinu drógu skógræktarmenn þann lærdóm að kvæmi og klónar sem koma frá svæðum með kaldan og stöðugan vetur henta illa á sunnan- og vestanverðu landinu og víðar við sjávarsíðuna. Gripið var til þess ráðs að safna efniviði af ösp og greni frá suðlægari svæðum í Alaska en áður og lögð áhersla á að planta þeim trjám á þeim svæðum sem verst urðu úti vorið 1963. Frægarður með völdum grenitrjám var síðar stofnaður í Noregi. Lúsarplágan varð hins vegar til þess að ræktun skógarfuru var algerlega gefin upp á bátinn.
Þó að þessi áföll beri hæst þegar saga innfluttra trjáa er skoðuð, fer því þó fjarri að þetta sé það eina sem hrjáð hefur nýbúana. Segja má að á nokkurra ára fresti komi fram kal, og aðrar veðurskemmdir einhvers staðar á landinu. Köld sumur koma af og til og draga úr vaxtargetu og viðnámsþrótti trjánna. Nýir skaðvaldar, misalvarlegir, hafa einnig plagað skógana okkar. Grenilúsin (sitkalúsin) sem talin er hafa borist hingað 1959 og asparryðið, sem fyrst fannst 1999, eru líklega verstu plágurnar.
Um 1990 verða viss þáttaskil í skógrækt á Íslandi. Þá er gert stórátak í svonefndri landgræðsluskógrækt á vegum skógræktarfélaganna og aukinn kraftur er settur í nytjaskógrækt á bújörðum. Síðan eru stofnuð skógræktarverkefni í öllum landshlutum í anda Héraðsskóga, sem leysa nytjaskógrækt á bújörðum af hólmi. Markmiðið er að 5% af láglendi Íslands verði skógi vaxið eftir 40 ár.
Síðan stóra stökkið 1990 var tekið hefur þróunin orðið sú að hlutur birkis í gróðursetningum hefur aukist, svo og hlutdeild aspar og sitkagrenis. Árið 1992 var hlutur alaskaaspar af heildarfjölda framleiddra plantna 2,7% en var árið 2004 orðinn 8,3%. Hlutur sitkagrenis jókst á sama tíma úr 4,9% í 13,9%. Plöntun á stafafuru og lerki hefur talsvert dregist saman. Hlutdeild annarra tegunda var og er óveruleg, en samanlagður er hlutur þeirra allra í heildarframleiðslu þó yfirleitt um eða yfir 10% þegar runnar og sjaldgæfari trjátegundir eru taldar með.
Vísindi og fræði | Breytt 18.1.2018 kl. 16:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)